sunnudagur, febrúar 26, 2006

Uppgefin

í dag er ég loksins komin í helgarfríið mitt langþráða!
Beint eftir skóla á föstudaginn fór ég að vinna í Oddur bakarí og var þar til 8 eða eitthvað um kveldið. Kom svo heim alveg búin í fótunum en fór samt sem áður upp í sumarbústað í teiti til að fagna 25 ára afmæli frænku minnar hennar Örnu Daggar.
Ánægjulegt kvöld, horft upp til himins á stjörnuprúðan himininn sem ekki sést hér á höfuðborgarsvæðinu lengur..
allavega ekki svona mikið af stjörnum.
Man á mínum yngri árum þegar maður lá niðri á túni og horfði upp til stjarnanna seint á kvöldin. Sá jafnvel stjörnuhröp og fleira. En nú er ljósmengunin orðin svo gríðarlega mikil. Fyrir utan Grafarvoginn sem nálgast Mosfellsbæinn óðfluga. Ljósin þaðan skemma hálfpartinn fyrir okkur "sveitabúum", að mínu leiti.
En áfram með mína helgarsögu!
Ég kom heim um nóttina til þess að vakna eldsnemma (hress og ekki hress) og mæta í vinnuna mína. Það var alveg fullt að gera! Ég vissi ekki að það væri svona mikið að gera í bakaríum, sem var ein af ástæðunum fyrir því að ég valdi bakarí.
En ég var þar þangað til árshátíðarmót hestamannanna hér í Herði byrjaði og þurfti því að drífa mig niður í hesthús til að skrá mig og rétt náði inná völlinn þegar að mínu holli var komið.
Gekk ekki vel enda var ég ekkert undirbúin, sem ég er þá búin að læra af. En Sigga hreppti 4. sætið í Ungmennaflokki og Aðalheiður var í 3. eða 4. sæti í unglingaflokknum. Til hamingju með það stelpur!
En eftir árangursríkan dag í hesthúsinu fór ég heim í langþráða sturtu. Hugsa sér hversu úldin maður getur orðið af öllu þessu! Sofnaði svo bara uppúr hálf 6 á laugardaginn en var vakin af Siggu til þess að mæta til Söndru í fyrirpartý fyrir árshátíð Harðar síðar um kveldið.
Það var svoldið skrautlegt þegar ég loksins mætti (sem ég ætlaði ekki að gera vegna þreytu). Tónlistin heyrðist út götuna hennar Söndru og svo var mér litið inn um gluggann og eru þá ekki stelpurnar þarna dansandi eins og brjálæðingar!
Aumingja Dimma (hundur Söndru) sat þarna alveg steinhissa á látunum, skildi hvorki upp né niður hvers vegna stelpurnar voru hoppandi upp í sófa og dansandi út um allt. Svo hún var fegin þegar við yfirgáfum heimilið.
En árshátíðin var svo haldin að Hlégarði og fylgdi ég stelpunum þangað áður en ég fór heim gjörsamlega búin! Kíkti aðeins inn til að heilsa fólki en hraðaði mér út aftur þar sem ég var ekki í miklum dansham..

En svona var mín frásagnarfærandi helgi. Þarf að læra í dag, svo ég er farin.
Brynhildur kveður...

1 ummæli:

Brynhildr... sagði...

jehh til hamingju með það krúttípútt.
Ég efast um tíuna sem ég ætlaði að fá síðar á árinu. ahemm... stórlega!
En allt getur gerst. Ég vona ennþá eftir að sjá fljúgandi flóðhesta... bíð spennt með kíkinn mér við hönd!

Nokkrar myndir